Stóra upplestrarkeppnin

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Kirkjumiðstöðinni á Eskifirði mánudaginn 24.apríl. Þar spreyttu nemendur, úr grunnskólum í Fjarðabyggð, sig í upplestri og framsögn.

Vöttur Þeyr Ívarsson og Sólný Petra Þorradóttir voru fulltrúar Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar í keppninni. Þau stóðu sig bæði mjög vel enda búin að æfa vel undanfarið. Auk þeirra voru þær María Lind Guðmundsdóttir og Ísafold Ýr Óðinsdóttir tilbúnar ef eitthvað kæmi uppá.

Styrmir Snorrason úr Nesskóla var hlutskarpastur og í öðru sæti var Hekla Bjartey Davíðsdóttir úr Eskifjarðarskóla. Sólný Petra hreppti þriðja sætið og fékk að launum 10.000 kr. Allir keppendur fengu rós og ljóðabókina Stím, eftir Jón Knút Ásmundsson, að launum fyrir lesturinn.

Þetta var virkilega hátíðleg stund og í ávörpum gesta m.a. bæjarstjóra Fjarðabyggðar var talað um hversu mikilvægt er að geta lesið, bæði sér til gagns og með blæbrigðum þannig að þeir sem eru að hlusta njóti þess.