Skólastefnan í stuttu máli

Í lögum um grunnskóla frá 2008 segir að markmið grunnskóla, í samvinnu við heimilin, sé að stuðla að þátttöku allra nemenda í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Lögin segja enn fremur að stuðla eigi að alhliða þroska allra nemenda. Grunnskólinn á að leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Skólinn skal stuðla að góðu samstarfi við heimilin með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf. Starfshættir skólans eiga að mótast af umburðarlyndi, kærleika, arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Grunnskólinn á að vera sá staður sem nemendur fá tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni. Þeir þurfa að temja sér vinnubrögð sem stuðla að menntun og þroska. Leggja þarf grunn að sjálfstæðri hugsun og hæfni til samstarfs.

Ný menntastefna stjórnvalda til ársins 2030 byggir á fimm stoðum sem ríma vel í við stefnu Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar:

★ jöfn tækifæri fyrir alla

★ kennsla í fremstu röð

★ hæfni fyrir framtíðina

★ vellíðan í öndvegi

★ gæði í forgrunni

 

Aðalnámskrá grunnskóla byggir á sex grunnþáttum menntunar. Þeir eru: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar er mikil áhersla lögð á að þessir þættir endurspegli starfshætti, skólabrag og samskipti. Að sama skapi mótist inntak náms og efnisvals, kennslu og leiks af þessum grunnþáttum. Lögð er áhersla á að Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar sé aðlaðandi vinnustaður þar sem velferð allra er höfð að leiðarljósi. Starfsfólki og nemendum líði vel í leik og starfi. Sköpuð sé sterk samvinnumenning svo starfsfólk vinni náið saman að velferð nemenda. Mikil áhersla er á að starfsfólk fái að njóta styrkleika sinna og að það fái rými til að þróast í starfi með það að leiðarljósi að fylgja stefnu skólans og stjórnvalda. Áhersla er einnig á fjölbreytni í kennsluaðferðum, nýsköpun og skapandi starf. Í skólanum er mikil áhersla lögð á teymisvinnu á öllum stigum og á að skipulag miði að því að rými sé til samstarfs. Til þess að svo megi verða er stundataflan þannig uppbyggð að öllu starfsfólki sé tryggður samráðstími. Hvatt er til skapandi hugsunar og gagnkvæmrar virðingar nemenda og starfsfólks. Allt starfsfólk sé hluti af teymum og upplifi sig sem hluta af sterkri heild. Skólinn er Olweusarskóli og líðan allra er höfð í fyrirrúmi.

Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar er hluti af stærra lærdómssamfélagi í Fjarðabyggð. Fræðslu og frístundarstefna sveitarfélagsins gerir ráð fyrir að:

● íbúar njóti fræðslu og frístunda í öruggu og hvetjandi umhverfi þar sem þeir fá færi á að blómstra og borin sé virðing og umhyggja fyrir umhverfinu.

● börn og ungmenni njóti fræðslu og frístunda sem stuðli að alhliða þroska, vellíðan og samfélagslegri ábyrgð.

● íbúar njóti fjölbreyttra frístunda í heilsueflandi samfélagi sem stuðli að góðri líkamlegri og andlegri heilsu.

● Fræðslu- og frístundastarf einkennist af fagmennsku, jákvæðni og styðjandi samstarfi.

Meginmarkmið fræðslu- og frístundastefnu Fjarðabyggðar er að íbúar, ungir sem aldnir, þroski hæfileika sína sér og öðrum til góðs í samfélagi sem einkennist af virðingu fyrir mannlífi og náttúru.

Í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar er starfað samkvæmt einkunnarorðunum: Ánægja - ábyrgð - árangur.

Ánægja vísar til þess að:

● við séum umburðarlynd og víðsýn

● velferð allra sé grunnur að góðu skólastarfi

● gleði skuli viðhöfð samhliða leik og starfi

● við mætum þörfum allra í námi og starfi

● styrkleikar allra séu nýttir

● skólabragur sé jákvæður

 

Ábyrgð vísar í að:

● hver og einn ber ábyrgð á framkomu sinni og gjörðum miðað við aldur og þroska

● hver og einn þarf að læra að bera ábyrgð á námi sínu og starfi

● við lærum af mistökum okkar

● við berum öll sameiginlega ábyrgð á nemendum

● við förum eftir uppeldisstefnu skólans

● við berum öll sameiginlega ábyrgð á umgengni og hjálpumst að

 

Árangur vísar til þess að:

● við séum virkir þátttakendur í samfélaginu

● við gerum betur í dag en í gær

● við nýtum leiðsögn til þess að bæta okkur

● við gerum okkar besta

● saman séum við sterkari

● við sýnum þrautseigju / seiglu og notum frekar hugarfar grósku en hugarfar festu

 

Skólastefna Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar byggist á ofangreindum markmiðum.