Nemendur í 5. og 6.bekk GF í heimsókn í Skaftfell listamiðstöð

Fimmtudaginn 11.september fóru nemendur 5. og 6.bekkjar í Skaftfell listamiðstöð að taka þátt í listfræðsluverkefninu Kjarval á Austurlandi á vegum BRAS.  

Nemendur og starfsfólk fóru með rútu á Seyðisfjörð og til baka. Dagskráin á Seyðisfirði tók rúma 3 tíma með nestispásu. Nemendum var skipt í 3 hópa sem skiptast á að taka þátt í þremur dagskrárliðum. 

Dagskráliðirnir voru þessir: 

1. Kjarval á Austurlandi - Leiðsögn

Nemendur fengu leiðsögn um sýninguna Kjarval á Austurlandi sem er sumarsýning Skaftfells í ár. Á sýningunni var Austurland viðfangsefni Kjarvals enda hafði hann ætíð sterkar taugar þangað frá því að hann var tekinn í fóstur sem barn á Borgarfirði Eystri. Umsjón með leiðsögn var í höndum Önnu Margrétar Ólafsdóttur fræðslufulltrúa Skaftfells.

2. Kjarval á Austurlandi - Listasmiðja

Í listasmiðjunni fengu nemendur innsýn inn í líf og list Kjarvals með áherslu á æsku hans og tengsl við Austurland. Kjarval var sendur í fóstur á Borgarfjörð eystri þegar hann var 4 ára gamall þar sem hann bjó fram til 17 ára aldurs. Í smiðjunni var pælt í haustlitinum og litanotkun Kjarvals í málverkum hans og nemendur hvattir til að nýta rútuferðina til að horfa og hugsa um litina í náttúrunni. Umsjón með listasmiðju var í höndum Hönnu Christel Sigurkarlsdóttur myndlistarkonu.

3. Tækniminjasafnið - Leiðsögn úti og inni

Nemendur voru sóttir í Skaftfell og gengið með þeim í gegnum útisýningar og vörður Tækniminjasafnsins. Endað var á safninu þar sem nemendur skoðuðu sýninguna og fengu fræðslu sem endaði á skemmtilegum spurningaleik. Umsjón með leiðsögn Tækniminjasafnsins er í höndum Kötlu Rutar Pétursdóttur og Elfu Hlínar Pétursdóttur.

 

Nemendur og starfsfólk voru ánægð með ferðina. Myndir frá ferðinni má sjá hér.