Ruslatunnulistaverk

Skólaárið 2021-2022 sáu Tinna Hrönn Smáradóttir og Guðfinna Kristjánsdóttir um smiðju fyrir 9.-10. bekk sem var kölluð “Kistan”. Markmiðið var að efla nemendur í sköpun, nýta verðlaust efni, fá hugmyndir og vinna þær áfram til framkvæmda og sjá afurð að loknu verki. Ein hugmyndin var fengin að láni frá Vestmannaeyjum og Akranesi, hvar ruslatunnurnar á ljósastaurum bæjanna eru prýddar máluðum listaverkum. Nokkrir nemendur fóru í að hanna og útfæra listaverk og máluðu eina ruslatunnu sem lukkaðist prýðilega og hangir hún á ljósastaur á skólalóð Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar.

Á nýliðnu skólaári var ákveðið að bjóða uppá Kistuna sem valgrein á unglingastigi þar sem einblínt var á ruslatunnurnar. Þrjár tunnur urðu afraksturinn og nemendur nutu sín við verkið. Einn nemandi sá alfarið um eina tunnu og fékk að velja henni stað. Ruslatunnan sú hangir við áningarstaðinn til móts við kirkjuna.  Hinar tunnurnar voru gerðar í samvinnu nemenda og kennara, önnur þeirra er staðsett á lóð leikskólans Kærabæjar og þeirri þriðju var valinn staður í Skrúðgarðinum við ærslabelginn.

Þess má geta að verkefnið var unnið í samráði við og með leyfi yfirverkstjóra á framkvæmdasviði Fjarðabyggðar. Þetta hefur verið virkilega skemmtilegt og er einnig liður í að lífga uppá fallega bæinn okkar og vonandi hvatning til að henda rusli í ruslið.

Myndir frá vinnu nemenda má sjá hér