Að gefast ekki upp þó á móti blási

Á sprengidag fengum við Dandý Dögg í heimsókn í 3. - 10. bekk en markmiðið með heimsókninni var að ræða mikilvægi þrautseigju. Hún sagði nemendum sína sögu og kynnti fyrir þeim Ironman. Óhætt er að segja að saga hennar hafi vakið athygli hjá krökkunum. En hver er Dandý Dögg og hver er hennar saga?

Dandý Dögg, eða Svanhvít Dögg Antonsdóttir Michelsen eins og hún heitir fullu nafni, er rétt tæplega fimmtug og er fædd og uppalin á Stöðvarfirði en á ættir að rekja til Fáskrúðsfjarðar. Hún veiktist fyrst sem unglingur af erfiðum þarma- og slímhúðarsjúkdóm. Þessi sjúkdómur kom og fór fyrstu árin og stundum voru hléin löng og góð, jafnvel liðu ár milli veikinda. Árið 2006 fór sjúkdómurinn að verða erfiðari og meiri og endaði með aðgerð árið 2014. Þar var ristillinn allur, og hluti smáþarmanna, fjarlægður og í framhaldinu fékk Dandý varanlegan garnastóma. Það var mikil breyting og nýtt líf hófst hjá henni í framhaldinu þó svo hún sé ekki alveg laus við sjúkdóminn. Dandý hefur alla tíð verið mikil íþróttakona og þrátt fyrir veikindin undirbjó hún sig fyrir mjög stóra þríþrautarkeppni sem nefnist Ironman. Fimm mánuðum eftir aðgerðina tók hún þátt í keppninni í fyrsta skiptið og öllum að óvörum þá kláraði hún þríþrautina erfiðu. Þrautin samanstendur af 3,8 km sundi, 180 km hjólreiðum og 42,2 km hlaupi í lokin. Allt í allt hefur Dandý tekið fjórum sinnum þátt í keppninni þrátt fyrir sjúkdóminn. Dandý segir að hugarfar skipti öllu máli í því sem við tökum okkur fyrir hendur. 

Myndir frá heimsókninni má sjá hér