Stoðþjónusta

 

Aðstoðarskólastjóri fer með yfirumsjón með sérkennslu og stoðþjónustu við Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar. Hann sér um að fá greiningar vegna nemenda með sérþarfir. Hann er tengiliður við foreldra og sérfræðinga, s.s. sérfræðinga á skólaskrifstofu, á fjölskyldusviði Fjarðabyggðar, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Ráðgjafa- og greiningastöð ríkisins, Barna- og unglingageðdeild (BUGL) og aðrar stofnanir sem við á. Hann er ábyrgðamaður nemendaverndarráðs. Heildarskipulag sérkennslu er á höndum yfirmanns sérkennslu og sérkennara.

Teymi eru starfandi vegna nemenda með sérþarfir og í þeim sitja alltaf, stjórnandi, umsjónarkennarar og foreldrar. Auk þeirra, eftir þörfum hverju sinni, sérkennari, sérfræðingar frá fjölskyldusviði Fjarðabyggðar og/eða frá Skólaskrifstofu Austurlands og aðrir þeir aðila sem koma að stuðningi við nemanda. Stuðningsfulltrú viðkomandi nemandi, í samstarfi við umsjónakennara og sérkennara, styður við nám og athafnir daglegs lífs nemanda með sértækar þarfir. Stuðningurinn er einstaklingsmiðaður.

Ný stoðþjónusta var sett af stað haustið 2020 hjá Fjarðabyggð og gengur hún undir nafninu Sprettur. Meginmarkmið Spretts er að grípa fljótt inn í vanda barna með viðeigandi stuðningi og úrræðum í nærumhverfinu. Sprettur vinnur með foreldrum leik- og grunnskólabarna í Fjarðabyggð og styður þá í foreldrahlutverki sínu.

Sérkennsla

Innan skólans starfar veturinn 2021-2022 kennari í aðeins 50% starfi sérkennara. Sérkennarinn vinnur í nánu samstarfi við yfirmann sérkennslu og umsjónarkennara með ákveðna nemendur sem annaðhvort fá stuðning inn í bekk eða fá einstaklingsstuðning hjá sérkennara í lesveri. Einnig vinnur bæði sérkennari og yfirmaður sérkennslu með kennsluráðgjafa Skólaskrifstofu þegar kemur að greiningum nemenda.

Námsráðgjöf

Þar sem skólinn hefur ekki haft náms- og starfsráðgjafa frá skólaárinu 2017 -2018 þá hefur verið brugðið á það ráð að kaupa þessa þjónustu, til skemmri tíma af reyndum ráðgjafa.

Ráðgjafinn hittir bæði 9. og 10. bekk og kynnir fyrir þeim framhaldsskólanám, inntökuskilyrði, brautir, hæfniviðmið o.fl. Allir nemendur fara í áhugasviðspróf og fá einkaviðtal með ráðgjafa á eftir.

Þetta er endurtekið á vorönn 2022, þannig að 10. bekkur fær upprifjun á öllu og aftur einkaviðtal þar sem farið er yfir áform þeirra og væntingar og spurningum svarað. Ráðgjafi metur hvort nemendur eru með áform um framhaldsnámið í góðum farvegi eða hvort nemendur 10. bekkjar þurfa á frekari ráðgjöf að halda. Alltaf er hægt að fá hann í heimsókn ef þörf er á.

Umsjónarkennarar hafa sinnt ákveðnum þáttum sem oft eru á könnu námsráðgjafa eins og t.d. námstækni og almennri umfjöllun um framhaldsskólanám.

· Námsráðgjafi: Sigrún Eva Grétarsdóttir

Einstaklingsnámskrár

Sérkennari vinnur einstaklingsnámskrár og áætlanir fyrir nemendur sem á því þurfa að halda. Einstaklingsnámskrá tekur bæði til náms- og félagslegra þátta. Foreldrar samþykkja einstaklingsnámskrá með undirritun sinni.