Síðustu dagar

Það er alltaf nóg að gera hjá okkur í GF.

Í tilefni daga myrkurs var hjá okkur draugabraut sem að nemendaráð GF sá um að skipuleggja og setja upp. Skólinn var skreyttur með allskyns draugalegu skrauti og búninga-og vasaljósadagur á sínum stað. Krakkarnir voru rosalega ánægð með brautina, sumir smeykir og aðrir bara rosa spenntir.

Við fengum nornalega leik-og tónlistarsýningu frá List fyrir alla og þá fengu 1.-3.bekkur skemmtilega sýningu sem passaði vel á dögum myrkurs.

Bjarni Fritzson (höfundur Orra Óstöðvandi og Sölku bókanna) kom og hélt fund með foreldrum og nemendum 8.bekkjar um bekkjarmenningu. Hans markmið er að ýta undir jákvæða bekkjarmenningu sem við vonum að sitji eftir hjá bekknum. Hann kynnti bókina sína í kjölfarið fyrir 5.-7. bekk og bíða margir óþreyjufullir eftir að jólabókin komi út í desember.

Loðnuvinnsla Fáskrúðsfjarðar bauð 5.-10.bekk í bíó í Skrúð þar sem þau fengu að sjá heimildamynd um Ljósafellið sem gerð var í tilefni 50 ára afmælis Ljósafells og Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. Þar fengu allir eitthvað sætt til að maula á meðan myndin var sýnd. 1.-4. bekkur horfði á skemmtilega mynd í salnum hér í GF á meðan.

Þann 8. nóvember var vina- og baráttudagur gegn einelti. Markmið dagsins er m.a. að efna til umræðu og viðburða til að vinna gegn einelti, hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu.

Þennan dag skiptum við skólanum niður í vinabekki og unnið var að verkefnum með þeim tengt vináttu. Einnig átti sér stað fræðsla og umræður á milli vinabekkja hvernig sannur vinur er. Þar næst áttu allir að fylla út hjörtu og hringi með orðum sem tengist vináttu og skreyta. Verkið er ekki full búið en okkur hlakkar til að geta sett það upp þegar að því kemur. Nemendur unnu samviskusamlega að verkefninu og áttu góðar samræður sér stað inní hverjum hóp. 

Í myndaalbúmi er hægt að sjá einhverjar myndir frá þessum degi <3